Allir fundu Fanney nema Fanney fann ei Fanney

laugardagur, nóvember 25, 2006

Peningar!

Er að reyna að fá ekki vægt taugaáfall yfir peningaleysi en það gengur illa. Merkilegt hvað þeir geta farið í skapið á manni. Náði samt að eyða slatta í dag þegar ég fór með systu í kringluna. Labbaði fram hjá búð sem selur stígvél á 39.990 - slagar hátt í afborgunina af íbúðinni minni. Ég gæti sennilega keypt þau ef ég hefði grætt 15 milljarða eins og Björgúlfur yngri. Ég er alltaf að reyna að finna uppá einhverju sem gerir mig ríka. Finnst stundum eins og ég kunni ekki neitt. Hverjum datt það í hug að gerast kennari - ekkert hægt að græða á því. Var að spá í að taka að mér að skrifa ritgerðir fyrir fólk, en það stangast á við mínar skoðanir sem kennari og gefur sennilega ekki mikið af sér. Ég þarf að finna uppá einhverju snilldarlegu sem gefur mér fulla vasa fjár - einhverjar uppástungur. Ég get ekki skilið hvernig fólk getur keypt hús sem kostar 85 milljónir - hver ætli rafmagnsreikningurinn sé, svo ekki sé talað um þjófavörnina og allt sem því fylgir að eiga glæsihöll.
Einhvern tímann taldi ég upp bækurnar á náttborðinu hjá mér og hét því að vera duglegri að lesa. Síðan þá eru 3 búnar og margar eftir (ein enn í plastinu). Byrjaði aftur á móðir í hjáverkum og stundum finnst mér eins og þetta sé saga af mér, allavega sumir hlutar hennar. Nú þori ég ekki að biðja um bók í jólagjöf af því ég á eftir að lesa svo margar.
Ég byrjaði í ræktinni í síðustu viku en að sjálfsögðu varð AK veik þannig að ræktardagar mínir eru taldir. Þarf örugglega jafn mikið átak að koma mér aftur af stað eins og fyrst þegar ég skreiddist inn um hurðina á Hreyfingu, gjörsamlega að deyja úr hræðslu. Lifði fyrsta tímann af en það var samt mjög tæpt.
Mig vantar hugmyndir að jólagjöf handa Árna - verður að vera rómantískt - ekki borvél eða eitthvað svoleiðis.
Yfir og út