Allir fundu Fanney nema Fanney fann ei Fanney

föstudagur, ágúst 25, 2006

Vinir mínir geitungarnir

Ótrúlegustu hlutir stjórna lífi okkar - af því að við erum haldin einhvers konar fælni. Ég hef t.d. verið að taka mig á upp á síðkastið og horfast í augu við minn helsta óvin - geitunginn. Það var nú reyndar dálítið fyndið að sjá mig því ég lá á hnjánum útí miðju beði og var að reita arfa, reglulega stökk ég upp og hrópaði af því að ég sá geitung nálgast, en arfinn skildi fara sama hversu hrædd ég var. Rifsberin kalla á mig að þau verði tínd og búin til dýrindis sulta úr þeim en ég þarf að horfast í augu við vini mína og þá gugna ég. Jarðaberin eru líka öskrandi á mig, tilbúin með ísnum og súkkulaðisósunni, en sama sagan - vinirnir stjórna mér. Ég hef verið að reyna að sýna ekki stráknum þessa hræðslu því ég vil ekki ala á ótta hjá honum sérstaklega af því að ég veit að það er óþarfi að óttast þessi kvikindi. Örfáar hræður eru með ofnæmi fyrir þeim og þurfa lyf ef þeir eru stungnir og það er alveg nógur tími til að fara uppá slysó ef það gerist. Maður dettur ekki bara niður dauður. En hvað veldur fælni?

Hér koma nokkur athyglisverð atriði varðandi fælni tengd köngulóm, tekin af Vísindavefnum:

Hræðsla við köngulær og önnur smádýr er oftast ástæðulaus. Hún er þó furðu algeng, sem gæti stafað af því að náttúruval hafi í árdaga verið þeim hliðhollt sem kunnu að forðast smádýr. Einnig er víst að fólk lærir af umhverfi sínu hvað beri að forðast.
Það er kallað fælni (e. phobia) þegar fólk er haldið ástæðulausum en fremur mögnuðum ótta við tiltekið fyrirbæri, þannig að það hái því í daglegu lífi. Fælni er einkum skýrð með tvennum hætti. Í fyrsta lagi lærir fólk - ef svo má að orði komast - að vera hrætt. Það gerist stundum með því að fólk lendir í hræðilegum eða ógnvekjandi aðstæðum - til dæmis ræðst hundur á það, eða það lokast inni í loftlítilli lyftu. Það verður síðan hrætt við viðkomandi fyrirbæri og aðstæður sem tengjast þeim, löngu eftir að öll raunhæf hætta er úr sögunni. Einnig getur fólk lært að hræðast tiltekna hluti af því að fylgjast með öðrum sem óttast þá. Til dæmis getur barn tileinkað sér ótta við fyrirbæri sem það sér foreldri eða systkin óttast. Auk námsferla benda þeir sem rannsaka ótta líka á að mannfólki virðist tamara að óttast suma hluti en aðra. Líklegast er einnig að allnokkur munur sé á fólki í þessu efni; sumum sé miklu hættara að þróa með sér fælni en öðrum.

Eins og mig grunaði þá er ég að dreifa vitleysunni til barnanna, þannig að hingað og ekki lengra. Ég ætla sem sagt að vera í þessu næstu daga - fara út í garð og stíga í óttann. Það gerist þó ekki neitt verra en það að ísskápurinn fyllist af rifsberjasultu og gómsætum jarðaberjum.

4 Comments:

Blogger Thorhildur said...

Ég vissi ekki að ég væri með fiðrildafóbíu fyrr en ég fór í stóran fiðrildagarð í Singapore. Sem betur fer á maður ekkert oft leið þangað...

8:55 e.h.  
Blogger Fanney said...

Fiðrildin eru fallegri en geitungarnir en ég get alveg skilið að þú hafir verið hrædd

10:51 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

og hvernig gengur svo???

10:21 f.h.  
Blogger Fanney said...

Sultan er ekki tilbúin en það gerist fljótlega :-) Vinirnir eru ekki svo scary eftir allt saman.

11:39 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home