Allir fundu Fanney nema Fanney fann ei Fanney

þriðjudagur, júlí 31, 2007

Útilegur fyrir fiska

Sumarið fer að verða búið! Allavega er rigningin komin. Ég byrja að vinna eftir viku og það verður örugglega mjög skrítið, en ég er viss um að það verður gaman. Verslunarmannahelgin í öllu sínu veldi fram undan og örugglega margir á leið í útilegu með milljónirnar í eftirdragi (bólar aðeins á öfund hér). Ég hef gefist upp á tjaldútilegum þetta sumarið og læt aðra um það. Verslunarmannahelgin er stórkostlegt fyrirbæri. Unglingarnir segja upp vinnunni til að geta farið með vinunum á fyllerí. Eldri unglingarnir (ég tilheyri þeim hópi) hittast með litlu fjölskyldurnar og fara á djúserí. Fullorðna fólkið (ég tilheyri ekki þeim hópi :-)) fara í sumarbústaðinn og fara á nett kenderí. Flestir með álagningarseðilinn í vasanum mis glaðir yfir innihaldinu og allir versla frá sér allt vit. Þeir sem hafa fengið eitthvað til baka ,,EIGA ÞAÐ SKILIÐ" að kaupa sér eitthvað fyrir vaxta/barnabæturnar því þeir hafa ekki átt pening allt árið og þeir sem þurfa að borga ,,EIGA ÞAÐ SKILIÐ" að kaupa sér eitthvað eftir allt streðið sem varð til þess að þeir þurftu að borga til baka. Um þessi mánaðarmót er því mikil sala á stórum sjónvörpum, gasgrillum, húsgögnum svo ekki sé talað um áfengið. Allir ,,EIGA ÞAÐ SKILIÐ" að fá eitthvað fallegt. Allavega, þá förum við sennilega öll eitthvert, í útilegu, í bústaðinn, á pöbbinn eða bara út í garð. Blessaða veðrið á ekki að vera upp á marga fiska - en hæfir sennilega best fiskum.

mánudagur, júlí 16, 2007

Manchester - kínversk prinsessa - húsbyggingar

Það er svo margt skemmtilegt búið að gerast síðan síðast.
Við upplifðum aftur Manchester í öllu sínu veldi þegar við skruppum í helgarferð um daginn. Ég á svo yndislegt fólk í kringum mig og Gunnar og Þóra eru efst á listanum. Þessar elskur komu eitt kvöldið og buðust til að hafa börnin heila helgi. Við vorum ekki lengi að grípa hendina þegar okkur var réttur litli putti og pöntuðum okkur ferð frá fös. - mán. :-) Ágústa mín var svo góð að leyfa okkur að vera í nýja húsinu sínu. Hún og Andy voru að festa kaup á frábæru húsi og fengum við þann heiður að vera fyrstu gestirnir. Við vorum ekki svikin af dvölinni hjá Ágústu og Andy - við fengum 5 stjörnu þjónustu og var það fyrsta sem var gert var að keyra okkur í Fallowfield (þar sem við áttum heima) og kaupa KEBAB á SAJAAN (minn kebabstaður). Svo var dekrað við okkur alla helgina. Við fórum á snilldar ,,asian" veitingastað og borðuðum besta curry sem ég hef smakkað (og voru ófá curry-in sem fóru inn um mínar varir á sínum tíma). Við vorum svo heppin að hitta nokkra vini okkar í þessari stuttu heimsókn ásamt því að versla AÐEINS. Árna fannst þetta ekkert AÐEINS!!!!!!!!!!!!!!
Kebab og Stella Artois var aðaluppistaðan í fæðu helgarinnar og ég get ekki beðið eftir að komast aftur út til að fá mér annan KEBAB. Andy fannst við fyndin að koma til Englands gagngert til að fá okkur Tyrkneskan þjóðarrétt. Well, sorry - I eat Kebab rather than fish and chips :-)
Kro-bar stóð fyrir sínu og ásamt HM, Primark og öllum hinum góðu búðunum.

Heiða, Jón og Telma Rós voru að eignast litla stúlku sem þau sækja til Kína eftir nokkrar vikur. Við erum SVO hamingjusöm fyrir þeirra hönd og getum ekki beðið eftir að sjá dúlluna.

Við vorum í ,,landinu" um helgina að smíða gestahúsið. Það er búið að reisa grindina og gaman að sjá koma mynd á þetta allt saman. Í bongóblíðu nutum við þess að vera í sveitasælunni og krakkarnir léku sér óáreitt (fyrir utan það þegar þau voru að áreita hvert annað).

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Er ekki í bloggstuði

Ætlaði að blogga rosa mikið og segja ykkur frá Manchester ferðinni en eftir að hafa rent í gegnum bloggin og lesið heila býsn, skemmtilegt jafnt sem dapurlegt ákvað ég að láta þetta gott heita í dag. Er ekki stuði.

mánudagur, júlí 02, 2007

Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag, hún á afmæli hún Linda Rós.

Hún Linda mín á afmæli í dag. Til hamingju vinkona.

Síðan ég bloggaði síðast hef ég:

 • Unnið baki brotnu óbrotin.
 • Sagt skilið við Mýrarhúsaskóla.
 • Dansað eins og bavíani í brúðkaupi.
 • Sleikt sólina.
 • Reitt arfa í garðinum og það sér ekki högg á vatni.
 • Dáðst að landinu mínu stóra og fallega í Villingaholtshreppi.
 • Skoðað fellihýsi og öfundað systur mína af sínu.
 • Hætt að öfundast yfir fellihýsum og pantað mér ferð til Manchester.
 • Hugleitt hvort það sé yfir höfuð gott að taka skyndiákvarðanir.
 • Krosslagt allt sem ég á fingur, tær o.fl. fyrir Heiðu vinkonu.
 • Verið of hreinskilin og liðið illa yfir því.
 • Reynt að svara spurningunni ,,hvað borða vörtusvín?"