Allir fundu Fanney nema Fanney fann ei Fanney

miðvikudagur, september 27, 2006

Síðan ég bloggaði síðast hef ég:

- Horft á pabba brjóta flísar og steypu inni á baði.
- Borðað sykurlaust súkkulaði.
- Farið í heimsókn í Stykkishólm.
- Hlustað á þungarokk (frá Finnlandi).
- Rifjað upp góða daga í Húrí heima hjá Önnu Þóru.
- Skoðað fasteignaauglýsingar.
- Reynt að líta á björtu hliðarnar.
- vonast til að komast til Ágústu í Manchester, mjög fljótlega.

þriðjudagur, september 19, 2006

Píparaskoran og Pollýanna

Aldrei hefði ég trúað því að ég ætti eftir að hitta 4 pípara í þessari viku...og nota bene enginn af þeim var með píparaskoru :-) Dómur hefur fallið, það þarf að leggja kalda vatnið uppá nýtt í minni fallegu íbúð. Hvað eru nokkrir hundraðþúsundkallar á milli vina. Ég er orðin svo vön peninga-áföllum að ég kippi mér ekkert upp við þetta. Minni mig alltaf á að þetta gæti verið verra. Það er mikið búið að vitna í hana Pollýönnu blessaða og ekki slæmt að hafa svona heimsbókmenntir til að styðjast við þegar mikið er í húfi. Þetta er sennilega sú bók sem hefur haft hvað mest áhrif á líf mitt. Ég vitna allavega oftar í hana en t.d. Njálu eða Sjálfstætt fólk þótt að þær séu ágætar til að slá um sig (þ.e. þeir kaflar sem ég hef lesið og var svo heppin að fá einmitt á stúdentsprófi).
Talandi um heppni þá er fataskápurinn minn alltaf að verða betri og betri - eftir nokkrar áttaksvikur og sykurskort hef ég eignast fleiri flíkur og án þess að eyða krónu í þær. Ég mæli með þessu fyrir alla sem eru í fjárhagskröggum :-)
Fyrstu spár um frost heyrast núna í útvarpinu og ég get ekki beðið eftir að snjórinn láti sjá sig.....en svo er ég yfirleitt komin með leið á honum eftir nokkra daga og vil fá auðar og fínar götur. Eins gott að skaparinn hlusti ekki mikið á mig. Hann hlustaði allavega ekki þegar ég bað um ódýra lausn á kaldavatnsvandanum.

þriðjudagur, september 05, 2006

Rólópælingar

Síðustu dagar hafa verið atburðalitlir þangað til í dag. Ég fór á róló eins og góðri móður sæmir, en nota bene var í símanum helminginn af tímanum eins og góðri nútíma ungri móður sæmir :) Þegar ég loksins hætti að tala í símann og eftir að 40 x hafi verið kallað mamma þá kom þar að yndislega gömul og sæt kona. Hún fór að spjalla við mig um daginn og veginn. Eftir u.þ.b. hálftíma spjall vissi ég nokkuð mikið um þessa geðþekku konu sem er búin að búa í götunni minni í hjartnær 49 ár. Ég fór að hugsa um það hvort að ég mundi finna mér einhvern svona góðan stað (og gott hús) og búa þar hálfa ævina. Það hlýtur að vera dálítið merkilegt að horfa á allt fólkið koma og fara og muna tímana tvenna í hverfinu.

Mitt helsta áhugamál þessa dagana er að reyna að elda grænmeti á sem fjölbreyttasta máta. Ótrúlegt hvað ég hef verið löt við að tileinka mér grænmetisrétti. Hafði t.d. aldrei bakað eggaldinn þangað til í síðustu viku og það er BARA gott. Ef einhverjir luma á góðum grænmetisuppskriftum endilega látið þær flakka.

Mitt annað helsta áhugamál þessa dagana, eftir að hafa upplifað margt undanfarið, er að minna mig á hvað ég er heppin manneskja. Ég er heilbrigð, á heilbrigða fjölskyldu og yndislega vini sem gefa lífinu gildi. Hef líka verið að hugsa um hvað það er nauðsynlegt að rækta vinskapinn og taka það ekki sem sjálfsögðum hlut að maður eigi vini í hverju horni. Ég lagði mitt af mörkum um helgina og hitti nokkra vini mína - m.a. á Ljósanótt og á Landspítalanum. Þið þarna úti sem álpist hingað inn og lesið þetta - hættið að lesa og farið og hringið/hittið vini ykkar og fjölskyldu.

laugardagur, september 02, 2006

Lifur í Norðlingaholtinu?

Ótrúlegt en satt þá var ég með lifur í matinn í kvöld (föstudagskvöld). Lifur er eitthvað sem maður borðaði sem barn og fannst ekkert sérstaklega góð en þar sem ég er svo vel upp alin þá sagði maður ekki neitt heldur skellti þessu í andlitið á sér og punktur. Núna ÞARF ég að borða lifur og ákvað því að elda hana í kvöld. Ég finn ennþá blóðlyktina af höndunum á mér og mig hryllir við lyktinni. Ég komst sem sagt að því í kvöld að mér finnst lifur ekki vond en ég get ekki hugsað mér að elda hana - læt annan í málið :-)

Norðlingaholtið heillar mig þessa dagana en ég var einmitt í heimsókn þar og varð hugfangin af berjamónum allt í kringum húsin (heillaðist þó ekki af byggingakrönunum). Haldiði að það sé ekki munur að geta bara fengið bláber við húsvegginn, beint í ísinn. 35 mín í Hveró og ég gæti ekki verið meira í leiðinni fyrir allt liðið sem er að koma í bæinn :-) Hvað segið þið - eigum við ekki bara að flytja í Norðlingaholtið?

Var að klára Skugga-Baldur og er byrjuð á Móðir í hjáverkum - svakalega skemmtilega skrifuð bók. Staflinn hefur minnkað :-)