Allir fundu Fanney nema Fanney fann ei Fanney

þriðjudagur, júní 26, 2007

Rökræður um ágæti tjaldhýsa

Eftir að hafa rökrætt um það í viku hversu nauðsynlegt það er að eiga tjaldvagn, fellihýsi, hjólhýsi eða A-hýsi þegar maður fer bara 3 x á ári í útilegur skelltum við okkur í útilegu með okkar fína High Peak braggatjald (ég sem sagt vann rökræðurnar). Við pökkuðum dótinu í bílinn og það hefði ekki verið hægt að kaupa sér tyggjópakka á leiðinni því hann hefði ekki komist með. Í vagúmpökkuðum bíl keyrðum við syngjandi af stað austur á bóginn. Við minn fagra heimabæ myndaðist fyrsta röðin ... og svo við annan fagran bæ myndaðist sú næsta og svo komumst við áfram og á leiðarenda. Eftir klst streð tókst fjórum íturvöxnum manneskjum (ég þar á meðal) að reisa Lauru Ingals braggann - hann stóð á tjaldstæðinu eins og hluti af litlum minnihlutahóp innan um glæsilegu 30 m2 háhýsin og jeppastóðið. Ég stóð álengdar stolt af mínu híbýli sem hvíldi ekkert lán á og ég gat farið frá því án þess að hafa áhyggjur af því að krakkarnir í næstu tjöldum myndu skemma það með útileikföngunum sínum. Ennnnn..... svo kom ROKIÐ. Hvernig sem ég sannfærði sjálfa mig um að það mundi lægja þá gerðist ekki neitt. Með samanbitnar varir klæddist ég hlýrabol og stuttbuxum og neitaði því að veðrið væri ekki stórgott. Við sátum fyrir utan slotið á tjaldstólum í hávaðaroki og þá dundu ósköpin yfir. Ein stöngin gaf sig og prinsessan lá sofandi í kerru inni í tjaldinu. Eftir mikið strit tókst okkur að tjasla stönginni saman (prinsessan svaf áfram) og fengum lánaða krafttöng til að halda tjaldinu saman . VIÐ ÆTLUÐUM EKKI HEIM! Næstu nótt sváfum við með krafttöng yfir hausnum á okkur og vorum að DREPAST úr kulda í skuldlausu, bráðfallegu, Lauru Ingals, High Peak bragga tjaldinu okkar. Það er spurning hver vann þessar rökræður?

3 Comments:

Blogger Drífa Þöll said...

já við erum sko geirfuglar, við sem ekki samþykkjum að fallast í freistni og kaupa rándýran útilegu búnað á hjólum. ég var einmitt í kúlutjaldinu mínu um helgina, er með kal á nefinu, hálsbólgu og svitaköst af hita en þrátt fyrir það allt saman mun ég standa á því að það var gaman að sofa úti í guðsgrænni náttúrunni án nútímaþæginda. núna er ég meira að segja að velta því fyrir mér hvenær ég komist aftur í útilegu!

7:57 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Stolt af þér!

5:04 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

eg skellti uppur her a bokasafninu. Frabaer saga! Ef thig vantar rok fyrir thvi ad kaupa EKKI svona otharfa, tha geturdu bara akvedid ad leggja peninginn sem thu hefdir annars skuldad fyrir og farid til utlanda. Tvo gestaherbergi leigjast fritt og thad er aldrei vont vedur her! Soldid dyrt flug reyndar...ja og langt

5:03 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home