Allir fundu Fanney nema Fanney fann ei Fanney

sunnudagur, ágúst 27, 2006

Síðan ég bloggaði síðast hef ég:

  • tínt rifsber meðal geitunga.
  • tínt jarðaber meðal snígla.
  • ekki borðað neitt nammi.
  • borðað 300 gr. af grænmeti í hádeginu og á kvöldin.
  • rætt alvarleg málefni.
  • þráð að fara til útlanda.
  • stytt buxur.
  • fengið foreldra mína heila heim frá útlöndum.
  • og margt margt fleira skemmtilegt.

föstudagur, ágúst 25, 2006

Vinir mínir geitungarnir

Ótrúlegustu hlutir stjórna lífi okkar - af því að við erum haldin einhvers konar fælni. Ég hef t.d. verið að taka mig á upp á síðkastið og horfast í augu við minn helsta óvin - geitunginn. Það var nú reyndar dálítið fyndið að sjá mig því ég lá á hnjánum útí miðju beði og var að reita arfa, reglulega stökk ég upp og hrópaði af því að ég sá geitung nálgast, en arfinn skildi fara sama hversu hrædd ég var. Rifsberin kalla á mig að þau verði tínd og búin til dýrindis sulta úr þeim en ég þarf að horfast í augu við vini mína og þá gugna ég. Jarðaberin eru líka öskrandi á mig, tilbúin með ísnum og súkkulaðisósunni, en sama sagan - vinirnir stjórna mér. Ég hef verið að reyna að sýna ekki stráknum þessa hræðslu því ég vil ekki ala á ótta hjá honum sérstaklega af því að ég veit að það er óþarfi að óttast þessi kvikindi. Örfáar hræður eru með ofnæmi fyrir þeim og þurfa lyf ef þeir eru stungnir og það er alveg nógur tími til að fara uppá slysó ef það gerist. Maður dettur ekki bara niður dauður. En hvað veldur fælni?

Hér koma nokkur athyglisverð atriði varðandi fælni tengd köngulóm, tekin af Vísindavefnum:

Hræðsla við köngulær og önnur smádýr er oftast ástæðulaus. Hún er þó furðu algeng, sem gæti stafað af því að náttúruval hafi í árdaga verið þeim hliðhollt sem kunnu að forðast smádýr. Einnig er víst að fólk lærir af umhverfi sínu hvað beri að forðast.
Það er kallað fælni (e. phobia) þegar fólk er haldið ástæðulausum en fremur mögnuðum ótta við tiltekið fyrirbæri, þannig að það hái því í daglegu lífi. Fælni er einkum skýrð með tvennum hætti. Í fyrsta lagi lærir fólk - ef svo má að orði komast - að vera hrætt. Það gerist stundum með því að fólk lendir í hræðilegum eða ógnvekjandi aðstæðum - til dæmis ræðst hundur á það, eða það lokast inni í loftlítilli lyftu. Það verður síðan hrætt við viðkomandi fyrirbæri og aðstæður sem tengjast þeim, löngu eftir að öll raunhæf hætta er úr sögunni. Einnig getur fólk lært að hræðast tiltekna hluti af því að fylgjast með öðrum sem óttast þá. Til dæmis getur barn tileinkað sér ótta við fyrirbæri sem það sér foreldri eða systkin óttast. Auk námsferla benda þeir sem rannsaka ótta líka á að mannfólki virðist tamara að óttast suma hluti en aðra. Líklegast er einnig að allnokkur munur sé á fólki í þessu efni; sumum sé miklu hættara að þróa með sér fælni en öðrum.

Eins og mig grunaði þá er ég að dreifa vitleysunni til barnanna, þannig að hingað og ekki lengra. Ég ætla sem sagt að vera í þessu næstu daga - fara út í garð og stíga í óttann. Það gerist þó ekki neitt verra en það að ísskápurinn fyllist af rifsberjasultu og gómsætum jarðaberjum.

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Ælupollar og húðflúr

Ja hérna hér! Það rignir yfir mig hamingjuóskunum. Það er eins gott að standa sig í stykkinu.
Ég er aldeilis búin að fá það aftur í hausinn að hafa haldið því fram að líf mitt væri að róast. Krílin mín hafa látið hafa fyrir sér svo ekki sé meira sagt. Það borgar sig ekki að vera með svona yfirlýsingar. Til að lýsa ástandinu þá er ég ógreidd, með ælupolla á öxlunum (síðan í hádeginu) og búin að taka aðra panodil eftir mikinn grát. Ennnnn bara svo það sé alveg á hreinu þá er ég mjög ánægð með hlutskipti mitt (verð samt ánægðari þegar panodilið fer að ,,kick in")
Bókastaflinn FER af náttborðinu :-)

Efst á baugi er að sjálfsögðu Rockstar - SUPERNOVA, en hvað hefur sá þáttur gert fyrir mig:
- gefið mér tilefni til að vaka fram á nótt og ástæðu til að sofa frameftir daginn eftir.
- hefur breytt skoðun minni á húðflúri.
- ég hef spurt mig over and over af hverju þurfa rokkkvenmannsföt að vera svona ,,working - girl" -leg.
Á hverjum þriðjudegi segi ég ,,ég ætla ekki að vaka í kvöld" en hvað gerist, ég vaki og er svo að deyja úr þreytu daginn eftir. Á hverjum miðvikudegi segi ég ,,ég ætla ekki að vaka í kvöld" og sagan endurtekur sig. Rockstar-SUPERNOVA hefur sem sagt kennt mér hvað ég hef ekkert vald yfir sjálfri mér (ekki að það væru einhverjar nýjar fréttir).

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Haustið er tíminn

Skrítið hvað haustið hefur alltaf haft mikil áhrif á mig. Á haustin fer að dimma aftur og kerti verða uppáhalds hlutirnir mínir. Ekkert er eins þægilegt en að hjúfra sig undir teppi uppí sófa, horfa á sjónvarpið og allt er fullt af kertum. Á haustin breyta margir til - fara í skóla, taka sig á í ræktinni, byrja í nýrri vinnu o.s.frv. Ég held að ein af ástæðunum fyrir því að ég gerðist kennari var tilbreytingin og hvað það er gaman að mæta aftur í vinnu á haustin. Það myndast alltaf svo skemmtileg stemning þegar maður fer í bókabúðina og sér alla krakkana kaupa skóladót og sumir að fá skóladót í fyrsta skipti. Foreldrarnir sumir stressaðir að senda barnið í skólann og veit ég nokkur dæmi um að foreldrar hafi fellt tár á fyrsta skóladegi barnsins. Ég er líka svo mikil vetrarmanneskja - ég bíð eftir vetrinum. Sennilega útaf ofnæminu góða sem hefur reyndar lítið verið að hrella mig í sumar en líka útaf snjónum.

Ég fór í Ikea í dag sem er nú ekki frásögu færandi nema það að ég fór með MIÐA í Ikea, eins og þegar maður fer í matvöruverslun - ég þurfti að kaupa svo marga hluti og var alveg viss um að gleyma einhverju þannig að bleiki miðinn fór með. Það var nú dæmigert að næstum ekkert var til af því sem ég ætlaði að kaupa. Ég hitti systu í kaffiteríunni og þegar ég beið eftir afgreiðslu sá ég miða liggja ofaná Svalafernunum í kælinum og það merkilega við þennan (illa skrifaða) miða var að eigandinn ætlaði að kaupa nánast það sama og ég. Skrítið!

Mælikvarðinn á það að líf mitt er að róast eftir erilsamt sumar er að ég er byrjuð að lesa aftur. Þeir sem voru með mér í Kennó muna kannski eftir því að nánast í hverjum fyrirlestri kynnti kennarinn okkur fyrir ,,The BOOK" og alltaf sögðu þau ,,þessa verðið þið að hafa á náttborðinu". Ég hugsaði oft um það að fá mér góða bókahillu við hliðina á rúminu til að koma öllum þessum bókum fyrir :-) Núna er kominn góður stafli á náttborðið sem ég á eftir að lesa eða er nýbúin með.
- Skugga Baldur eftir Sjón - mjög góð bók, er alveg að verða búin með hana.
- Að venja á kopp á einum degi - Algjör snilld - talandi um að virka vel - nauðsynleg!!!!!
- Móðir í hjáverkum - Verð að viðurkenna að hún er enn í plastinu en er næst á dagskrá.
- Memoirs of a Geisha - Hálfkláruð.
- Bókin um barnið - er að lesa hana í annað sinn og veitir ekki af.
- Good women of China - Rosalega góð bók sem allir ættu að lesa sem hafa einhvern áhuga á asískri menningu.
- Belladonna skjalið - er búin að byrja 2 á henni en næ ekki að halda mér við efnið - en ég SKAL klára hana.
Þið sjáið það á þessum lista að ég verð upptekin næstu kvöld :-)

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Þegar ég verð stór!

Ok, ég verð að viðurkenna að það er leiðinlegt að skrifa bara fyrir sjálfan sig - svo langt sem það nær. Ég verð sennilega að auglýsa bloggið mitt og reyna eftir fremsta megni að hafa eitthvað frambærilegt efni til lesturs hér á þessari síðu. Sjáum hvort það virkar eitthvað :-)
Það sem er efsta á baugi hjá mér þessa daga og vikur er hvort við fjölskyldan eigum að flytja austur fyrir fjall. Fyrir suma er það ekki spurning að það sé það eina rétta í stöðunni að kaupa hús í Hveragerði/á Selfossi og setjast þar að með unganga okkar tvo. Jú jú það er ekki svo galið sérstaklega ef við horfum á íbúðaverð. Við gætum fengið stórt einbýlishús með palli og potti fyrir sama verð og hæð hér í Reykjavík. En þá er komið að aðal málinu í þessu öllu saman og það er vinnan. Við verðum bæði að hafa frambærilega vinnu fyrir austan ef dæmið á að ganga upp. Við eyðum mestum parti dagsins í vinnunni og því er alveg nauðsynlegt að maður sé ánægður í vinnunni og að hún sé krefjandi á einhvern hátt. Það er auðvitað hægt að keyra á milli en mér finnst tíminn líka dýrmætur og sérstaklega þegar börn eru í spilinu sem fara að sofa klukkan átta á kvöldin. Það sést örugglega á þessum skrifum mínum hvoru megin borðsins ég er í dag en það gæti hæglega breyst á morgun.

laugardagur, ágúst 19, 2006

Formlega orðin bloggari

Aldrei hefði mig grunað að ég mundi gerast bloggari. En það er það sem er svo skemmtilegt við þetta allt saman að maður veit aldrei hvað gæti gerst og núna fékk ég þá skyndihugdettu að gerast bloggari. Einhver sagði líka að konur með lítil börn gera marga skrítna hluti án þess endilega að ákveða það sérstaklega eða vita af hverju þær gerðu það. Þetta er eitt af því. Það sem mér finnst líka dálítið merkilegt við allt þetta blogg er hvað margir gefa sér tíma til að lesa þetta. Ég geri mér samt fulla grein fyrir því að maður verður að auglýsa bloggið sitt, hafa eitthvað merkilegt að segja og vera svolítið skemmtilegur til þess að einhver eyði sínum dýrmæta tíma í lestur. Ég var að hugsa um að auglýsa það ekki og athuga hvort einhver mundi ramba hingað inn. Ef þú lest þetta þá endilega skrifaðu komment og taktu þátt í rannsókninni.